Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Ákvörðun Matvælastofnunar frá 24. nóvember 2017 um að hafna umsókn um sameiningu sauðfjárhjarða

Miðvikudaginn, 10. apríl 2019, var í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 21. febrúar 2018, bar [A] (hér eftir kærandi) fram kæru f.h. [B] vegna ákvörðunar Matvælastofnunar (hér eftir MAST) frá 24. nóvember 2017 um að hafna umsókn um sameiningu sauðfjárhjarðanna í [C] og [D].

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og barst innan kærufrests.

 

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og endurskoðuð í ljósi faglegra raka um smitvarnir.

 

Málsatvik

Þann 22. nóvember 2017 sótti kærandi um að MAST heimilaði kæranda lán á hrúti frá öðrum bæ. Stofnunin synjaði umsókninni með bréfi dags. 24. nóvember 2017. Með bréfi dags. 21. febrúar 2018 var ákvörðunin kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með bréfi dags. 28. febrúar 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn MAST vegna málsins sem barst þann 14. mars 2018. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á andmælum vegna umsagnarinnar og bárust andmæli þann 23. apríl 2018.

 

 

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu er deilt um synjun MAST á leyfi til kæranda til að fá lánaðan hrút af öðrum bæ, samanber það sem fram kemur í umsögn kæranda þar um til stofnunarinnar dags. 22. nóvember 2017. Um deiluefnið gilda lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim auk reglugerðar nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar.

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 25/1993 kemur fram að MAST skuli vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að dýrasjúkdómum og framkvæmd laganna. Í gildi er reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar sem er sett samkvæmt heimild í m.a. lögum nr. 25/1993. Í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að af sýktu svæði og innan þess sé óheimilt að flytja sauðfé til lífs milli hjarða. Meginreglan er því sú að óheimilt er að flytja fé til lífs milli hjarða. Í 4. gr. kemur fram að MAST geti heimilað sameiningu tiltekinna hjarða innan sýktra svæða hafi ekki greinst riða á viðkomandi bæjum í 20 ár og aðrar ástæður mæli ekki gegn því að hjarðirnar verði sameinaðar. Þá skuli afla leyfis sveitarstjórnar og héraðsdýralæknis um fyrirhugaðar breytingar á upprekstri innan sveitar. Einnig kemur fram að á sýktum svæðum skuli ekki hýsa aðkomufé né fóðra eða brynna því með heimafé. Að mati ráðuneytisins er ljóst, miðað við orðalag greinarinnar í heild, að umrætt hrútalán geti ekki talist til sameiningu hjarða í skilningi ákvæðisins. Verður ákvæðið vart túlkað á annan veg en að því sé ætlað að auðvelda sameiningu hjarða til frambúðar við sérstakar aðstæður, svo sem ef annar aðilinn hyggst bregða búi.

Þá er nærtækast að horfa til fyrrgreinds 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. sem segir að óheimilt sé að flytja sauðfé til lífs milli hjarða af sýktu svæði og innan þess. Í 1. gr. reglugerðarinnar er sýkt svæði skilgreint svo: „Landsvæði innan sóttvarnarsvæðis þar sem riðuveiki hefur fundist sl. 20 ár.“ Óumdeilt er að riða greindist í Hrepps-, Skeiða-, og Flóahólfi síðast árið 2010 og verður svæðið því ekki metið sem ósýkt svæði fyrr en í árslok 2030.

Með vísan til alls ofangreinds er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri synjun MAST á umræddu hrútaláni.    

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 24. nóvember 2017, um að synja [B] um lán á hrúti frá öðrum bæ er hér með staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum